Nýbirtur árshlutareikningur Reykjavíkurborgar ber fjárhagnum ekki fagurt vitni. Tap af reglubundnum rekstri nam um 8,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og var afkoman rúmlega fjórum milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Enn sígur á ógæfuhliðina í rekstri borgarinnar.
Rjúkandi rúst?
Á landsfundi Samfylkingar árið 2018 sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fjárhagsstöðu borgarinnar hafa verið “rjúkandi rúst” eftir stuttan valdatíma Sjálfstæðismanna sem lauk árið 2010. Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumum í borginni árið 2008, í aðdraganda bankahruns. Við samfélaginu blöstu krefjandi aðstæður og allt benti til þess að rekstur borgarsjóðs yrði þungur. Yfir þennan tveggja ára tíma tókst þó að halda örugglega um fjárhag borgarinnar. Skuldir borgarsjóðs jukust einungis um 3 milljarða meðan tekjur drógust saman um tæpan milljarð. Borgarsjóður var einn fárra sem skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu mitt í djúpri efnahagslægð.
Hið sama verður ekki sagt um fjármálastjórn sitjandi borgarstjóra. Ekki einungis er borgin rekin með nærri 9 milljarða króna tapi, heldur standa skuldir samstæðunnar nú í 420 milljörðum króna, en skuldir hækkuðu um 13 milljarða fyrstu sex mánuði ársins. Það samsvarar rúmlega tveimur milljörðum króna mánaðarlega eða 72 milljónum króna daglega.Það er því óhætt að segja að undir stjórn borgarstjóra stefni fjárhagur borgarinnar í rjúkandi rúst.
Útgjaldavandi ekki tekjuvandi
Þeir tekjustofnar Reykjavíkur sem lög gera ráð fyrir eru nær fullnýttir. Borgin innheimtir hæsta lögleyfða útsvar, fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru ósamkeppnishæfir og krónutala fasteignagjalda fer hækkandi árlega. Tekjutuskan er undin til fulls og rekstrarkostnaður eykst samhliða. Tekjur fyrir tímabilið voru nær 1,5 milljarði yfir áætlun en rekstrarútgjöld voru 3,4 milljörðum yfir fjárheimildum. Vandi borgarinnar er því ekki tekjuvandi – vandinn er mun fremur útgjaldavandi. Borgin er illa rekin.
Burt með báknið
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að rekstur borgarkerfisins verði endurskipulagður. Stjórnkerfi borgarinnar hefur orðið að bákni - minnka þarf yfirbyggingu, stöðva skuldasöfnun og sýna ráðdeild þegar sýslað er með fjármuni borgarbúa. Vinda þarf ofan af hömlulausri hækkun fasteignaskatta, draga úr samkeppnisrekstri og stefna að lækkun útsvars um leið og forsendur hafa skapast.
Því miður verður þó ekki séð að þessar breytingar verði að veruleika undir stjórn núverandi meirihluta. Enn er þörf á breytingum.
Comments